„Þessi alhæfing hjá honum að menn kunni ekki til verka í íslenskri verslun og innkaupin óhagkvæm er fyrir neðan allar hellur,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, spurður út í álit hans á grein Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar, kaupmanns í Sports Direct.

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson.
Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson.

Sigurður Pálmi skrifar í aðsendri grein sinni í Fréttablaðinu háan virðisaukaskatt og vörugjöld ekki skipta öllu máli þegar komi að dræmri sölu á fatnaði fyrir jólin. Íslensk verslun sé óhagkvæma. Hún kaupi á háu verði vegna smæðar og fjarlægðar við meginlandið og hafi auk þess offjárfest gríðarlega í verslunarhúsnæði. Því til viðbótar sé fjármagnið sem nýtt er til að borga hæsta leiguverð í Evrópu tekið beint úr vasa neytenda. Í stað þess að skoða sjálfa sig og leita leiða til að lækka verð og mæta samkeppninni grátbiðji talsmaður kaupmaður ríkið um að auka samkeppnsihæfni þeirra.

Þetta er önnur greinin sem Sigurður Pálmi ritar og gagnrýnir forsvarsmenn í íslenskri verslun. Hina skrifaði hann í október .

Tollar og gjöld hér of há

Andrés tekur undir með Sigurði Pálma að of margir fermetrar fari undir verslunarhúsnæði hér á landi. Hann vísar því hins vegar á bug að verslun sé rekin á óhagkvæman hátt, þar kunni menn ekki til verka, milliliðir séu of margir og innkaupin óhagkvæm.

„Það er hafið yfir vafa, hvað sem tautar og raular, að greinin býr við mjög erfiða samkeppnisstöðu. Tvítollun á vörum er staðreynd. Hún nær ekki aðeins til fatnaðar heldur margra vöruflokka sem hér eru á markaði,“ segir Andrés í samtali við VB.is og bendir á að 15% tollur sé á fatnaði hér auk virðisaukaskatts sem sé með þeim hærri í heimi. Það valdi því að innkaup í gegnum erlendar netverslanir hafi aukist til muna auk þess að Íslendingar kaupi 28-40% af fatnaði sínum erlendis. Staðan er allt önnur á erlendri grundu, að mati Andrésar. Enginn virðisaukaskattur er á fatnað barna í Bretlandi upp að 14 ára aldri og 6-8% söluskattur á fatnað í Bandaríkjunum.

Enginn virðisaukaskattur á fatnað barna í Bretlandi til 14 ára aldurs. Þessi atriði hafa óumdeilanlega áhrif á samkeppnisstöðuna óháð því hvernig menn standa sig í rekstrinum og hvernig þeir kaupa inn. Það er önnur umræða. En þetta er hin bitra staðreynd sem verður ekki umflúin.