Seðlabanki Nýja-Sjálands hækkaði stýrivexti í 8,25% í gær og hafa vextir aldrei verið hærri þar í landi. Yfirlýsingar forráðamanna bankans samfara ákvörðuninni benda þó til þess að þeir hafi trú á því að ekki sé von á fleiri vaxtahækkunum á næstunni. Sérfræðingar telja þó of snemmt að spá að þenslutímabilinu sé lokið.

Fyrir utan Ísland hefur ekkert þróað hagkerfi hærri vexti en Nýja-Sjáland og hefur gengi nýsjálenska dalsins haldist hátt, ekki síst vegna vaxtarmunaviðskipta. Í kjölfar yfirlýsingar Alan Bollard, seðlabankastjóra, um að eftirspurn eftir lánsfé í hagkerfinu færi minnkandi og að fjórar vaxtahækkanir í röð myndu væntanlega duga til þess að stemma stigu við verðbólguþrýstingi, féll gengi nýsjálenska dalsins gagnvart Bandaríkjadal. Það hafði náð tuttugu fimm ára hámarki á þriðjudag.

Þrátt fyrir ummæli Bollards og viðbrögð markaðarins telja sérfræðingar að ekki sé útilokað að seðlabanki landsins neyðist til þess að hækka vexti enn frekar. Samkvæmt könnun Dow Jones Newswires þá telja hagfræðingar um fjórðungs líkur að seðlabankinn muni hækka vexti þann þrettánda september næstkomandi. Sex af þeim fimmtán hagfræðingum sem voru spurðir spáðu hinsvegar að þetta væri síðasta hækkunin í þessu vaxtarákvörðunarferli. Fréttastofan hefur eftir Cameron Bagrie, aðalhagfræðingi ANZ fjárfestingabankans, að megintíðindin varðandi ákvörðunin og yfirlýsingu seðlabankastjórans séu að jafnvægi sé komið á ástandið í hagkerfinu. Hann spáir því að vextir komi ekki til að breytast á næstunni og býst ekki við að vextir lækki fyrr en á næsta ári eða því þarnæsta.