Þróun greiðslukortaveltu undanfarið gefur vísbendingu um að enn hægi á vexti einkaneyslu eftir mjög hraðan vöxt undanfarin misseri, segir greiningardeild Glitnis. Kreditkortavelta í nóvember var tæplega 21 milljarður króna og jókst um 3,5% milli mánaða.

?Að raunvirði jókst kreditkortavelta um 8,1% frá sama tíma í fyrra sem er næstminnsti raunvöxtur á ársgrundvelli frá miðju ári 2005. Þessar tölur gefa þó ekki heildarmynd af kortanotkun heimilanna því einnig verður að líta til notkunar debetkorta í innlendum verslunum. Þróunin undanfarið virðist hafa verið sú að almenningur notar í auknum mæli kreditkort á sama tíma og notkun debetkorta fer minnkandi. Til að mynda var heildarvelta af debetkortanotkun í innlendum verslunum ríflega 3% minni að raunvirði í nóvember en á sama tíma í fyrra,? segir greiningardeildin.

Hún segir að samanlagt myndi kreditkortavelta og velta vegna notkunar debetkorta í verslunum gagnlegan kvarða fyrir þróun einkaneyslu enda sterk fylgni þar á milli.

?Samanlagt var raunvöxtur þessarar veltu 2,7% milli ára og hefur hann ekki verið minni frá árslokum 2002. Ef miðað er við tölur um kortaveltu í október og nóvember má þannig ætla að vöxtur einkaneyslu frá fyrra ári á síðasta fjórðungi ársins reynist enn minni en raunin var á þriðja fjórðungi.

Jafnvel má ætla að vöxturinn verði lítill sem enginn. Einkaneysla er langstærsti einstaki þáttur landsframleiðslu og myndar um það bil 60% landsframleiðslunnar. Þessi þróun er í takti við þjóðhagsspá okkar frá liðnum ágúst. Teljum við að áfram muni draga úr vexti einkaneyslu og að hún standi í stað eða dragist nokkuð saman á næsta ári,? segir greininardeildin.