Á Wall Street eru vísbendingar um að óttinn sem hefur skekið skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði fari dvínandi og að verstu einkenni lánsfjárkreppunnar kunni að vera að ganga yfir. Þetta kemur fram í WSJ í dag.

Þar segir að á síðustu tveimur vikum hafi sést verulegur viðsnúningur víða á mörkuðum og ef þetta verði viðvarandi kunni það að verða mikilvægt fyrsta skref á löngum batavegi fjármálamarkaða og hagkerfisins í heild sinni.

Gull og ríkisskuldabréf lækka

Verð áhættulítilla ríkisskuldabréfa hefur lækkað hratt, sem er merki þess að áhættufælni fjárfesta fari minnkandi. Gullverð, sem hafði farið yfir 1000 dali á únsu er nú komið undir 900 dali.

Fjárfestar snúa sér að fyrirtækjaskuldabréfum

Fjárfestar eru sagðir hafa snúið sér að áhættusamari fjárfestingum sem hafi nánast ekkert verið snertar fyrr á árinu, svo sem skuldabréf fyrirtækja. Um leið hefur ávöxtunarkrafan sem fjárfestar gera til skuldabréfa fyrirtækja lækkað, jafnvel bréfa sem teljast ekki til hágæðabréfa eða fjárfestingastigs, svokallaðra "junk bonds".

Ekki í fyrsta sinn sem vonir hafa glæðst

WSJ bendir þó á að þetta sé ekki í fyrsta sinn á síðustu mánuðum sem fjárfestar hafi talið að viðsnúningur væri að eiga sér stað. Í október sl. hafi hlutabréf farið í hæstu hæðir auk þess sem fjárfestar hafi snúið sér að áhættusamari skuldabréfum, en þeir hafi í kjölfarið þurft að þola tap af þeim fjárfestingum.