Ekki er mikið um nýmæli í þeim tillögum sem hafa verið kynntar um afnám fjármagnshafta fyrir samráðsnefnd fulltrúa þingflokkanna. Vísbendingar um það sem koma skal sé að finna í núgildandi afnámsáætlun Seðlabanka Íslands frá árinu 2011. Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, en hann á sæti í nefndinni.

„Þær hugmyndir sem hafa verið í umræðunni um haftalosun fela ekki í sér nein stór nýmæli,“ segir Árni Páll. Hann telur jafnframt að ekki hafi mikið áunnist í málinu frá því að fyrri ríkisstjórn hafði það á sinni könnu.

Undanfarna daga hefur einkum verið talið að lagður verði á flatur útgönguskattur á bilinu 35-40% og að eigendur aflandskróna verði látnir skipta þeim fyrir skuldabréf til 30 ára með tæplega 3% ársávöxtun, að því er segir í Morgunblaðinu. Báðar hugmyndir eru viðraðar í áætlun Seðlabankans frá 2011 og hefur Már Guðmundsson seðlabankastjóri staðfest að útgönguskatturinn sé einn þeirra kosta sem séu alvarlega til skoðunar.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, leggst harðlega gegn hugmyndum um svo háan útgönguskatt. „Þetta er að okkar mati ekkert annað eignaupptaka," segir Steinunn. Aðspurð hvaða sjónarmið slitastjórnirnar hafi viðrað á fundi með framkvæmdahópi stjórnvalda á Grand hótel í vikunni segir hún það einkum hafa verið skoðun þeirra um að forðast ætti ýmsar þvinganir við afnám hafta.