Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á Alþingi rétt í þessu að það væri ánægjulegt að úrvalsvísitalan hefði hækkað í dag, á fyrsta degi, eftir aðalfund Seðlabankans og krónan styrkst. Það benti til þess að botninum í þessum efnum væri náð.

Orðrétt sagði ráðherrann: "Það er [...] ánægjulegt að nú á fyrsta viðskiptadegi eftir ársfund Seðlabankans skuli krónan hafa styrkst nokkuð myndarlega og hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi sömuleiðis. Það bendir til þess að botninum í þessum efnum sé náð."

Nú standa yfir umræður á Alþingi um efnahagsmál. Geir vísaði því á bug að yfirvöld í landinu; ríkisstjórnin og Seðlabankinn, væru ekki að gera neitt vegna ástandsins í þeim málum.

Hann sagði að ríkissjóður væri til að mynda að gefa út ný skuldabréf og að Seðlabanki Íslands væri, eins og aðrir seðlabankar, að gera ráðstafanir til að auka lausafé bankanna.

Auk þess væri margt í undirbúningi á vegum Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. Ekki væri þó hægt að greina nánar frá því.