Hvert metið á fætur öðru hefur verið slegið hjá Evrópska seðlabankanum nú um jólin. Þvert á það sem ætla megi þá eru þetta neikvæðar fréttir, vísbendingar um það vantraust sem ríkir á millibankamarkaði þessa dagana.

IFS Greining bendir á það í Morgunpósti sínum í dag að á annan í jólum hafi innstæður yfir nótt numið 411,81 milljarði evra. Upphæðin hefur aldrei verið hærri. Fyrra met var slegið í júní í fyrra.

Í gær var metið svo slegið á ný þegar innstæður ruku upp í 452 milljarða evra, samkvæmt upplýsingum Bloomberg-fréttastofunnar.

Evrópski seðlabankinn hefur síðustu daga sett allt á fullt til að slá á smitáhrif skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Í síðustu viku lánaði hann 523 bönkum á evrusvæðinu 489 milljarða evra til þriggja ára á aðeins 1% vöxtum með það fyrir augum að auka magn lausafjár í umferð og gera fjármálafyrirtækjunum kleift að standa við skuldbindingar sínar.

Barclays Capital reiknast svo til að aðgerðir seðlabankans jafngildi því að 193 milljörðum evra hafi verið dælt inn í evruhagkerfið. Svo virðist sem það fjármagn sem út af standi sé ekki lánað áfram heldur lagt inn hjá evrópska seðlabankanum.