Vísbendingar eru um aukin veðlánasvik á íslenskum fasteignamarkaði þar sem seljendalán eru veitt til þess að falsa eiginfjárstöðu kaupenda, en Morgunblaðið kveðst hafa heimildir fyrir þessu.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir í samtali við Morgunblaðið að þessum málum hafi fjölgað eftir hrun. Segir hann þau ganga þannig fyrir sig að lánastofnun, til dæmis Íbúðalánasjóður, láni fyrir 80-85% af kaupvirði. Seljendalán brúi svo bilið, en þá er ávinningur kaupandans sá að fá í raun 100% lán til kaupanna og fara þannig framhjá lögbundnu hámarki lánshlutfalls.

„Seljendalánið er þinglýst og stenst greiðslumat. Síðar getur komið í ljós að það er samkomulag milli seljanda og kaupanda um að greiða ekki af láninu. Það getur enginn haft eftirlit með því að slíkt samkomulag sé virkt,“ segir Sigurður.