Yngvi Harðarson hjá Analytica telur vísbendingar vera fyrir því að hagvöxtur muni aukast á ný snemma á þessu ári.

Leiðandi hagvísir ráðgjafafyrirtækisins sem hannaður er til að gefa vísbendingu um framleiðslu eftir sex mánuði hækkaði í desember, fimmta mánuðinn í röð, í þetta sinn um 0,4%. Vísitalan er byggð er upp af sex undirliðum sem mælast í upphafi framleiðsluferlisins og byggja á þeirri hugmynd að framleiðsla hafi aðdraganda.

Í desember hækkuðu fimm af sex undirliðum, mesta framlag til hækkunar mælist í verðmæti fiskafla og væntingavísitölu. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er enn sterk. Áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Leiðandi hagvísir Analytica hækkar um 0,4% í desember og tekur gildið 101,9, sjá töflu 1. Sú tala á að gefa vísbendingu um framleiðslu sex mánuðum síðar þ.e. í júní 2018. Hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.