Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) lækkaði um 0,2% í júlí. Hins vegar voru gildi fyrir fyrri mánuði endurskoðuð uppávið. Hagvísirinn bendir til að hægja sé á hagvexti. Að teknu tilliti til áhrifa árstíðasveiflu gæti landsframleiðsla dregist saman á milli fyrsta og annars ársfjórðungs þótt hagvöxtur á ársgrunni geti áfram orðið yfir langtímaleitni. Hægt er að kynna sér leiðandi hagvísi Analytica hér.

Þrír af sex undirliðum í hagvísinum lækka frá í júní. Eftir að leiðrétt er fyrir áhrifum árstíðasveiflu og langtímaleitni mælist samdráttur í ferðamannafjölda og lækkun væntingavísitölu og hefur það mest áhrif til lækkunar hagvísisins. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er þó enn sterk. Bent er á að áfram séu áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

„Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD,“ segir í frétt Analytica.