Greining Íslandsbanka telur að sú þensla sem skapast hefur á íslenskum vinnumarkaði virðist vera farin að þrýsta launum upp. Laun landsmanna hækkuðu að meðaltali um 0,3% í september samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar, sem birt var í morgun og eru rætur hækkunarinnar launaskrið og er stór hluti hennar til kominn vegna hærri launa í þeim greinum sem erfitt hefur reynst að manna undanfarið. Má þar nefna verslun og ýmis önnur störf sem ekki kalla á sérhæft vinnuafl en er þó óhægt um vik að manna með erlendu starfsfólki.

Í tölum Hagstofunnar í morgun má sjá fyrstu merki um launaskrið sem við höfum fengið í þessari uppsveiflu. Líklega verður framhald á þessari þróun á næstu mánuðum og misserum samhliða því að þenslan eykst á vinnumarkaðinum.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að reynslan sýnir svo að þegar kjör hluta starfsfólks fyrirtækja batna skyndilega fylgja aðrir starfsmenn gjarnan í kjölfarið, og því má búast við einhverjum keðjuverkunaráhrifum af ofangreindum hækkunum næsta kastið, auk þess sem skortur á vinnuafli kann að fara að hafa áhrif í fleiri greinum. Þannig er útlit fyrir að hækkanir umfram kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði gætu orðið meiri á næstunni en verið hefur undanfarið, og aukið þar með verðbólguþrýsting.

Síðustu 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 6,9%, sem samsvarar 2,1% kaupmáttaraukningu miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs á sama tímabili. Reikna má með því að kaupmáttur haldi áfram að aukast fram eftir næsta ári og er eina sýnilega verulega ógnin við þá þróun staða krónunnar en viðbúið er að hún muni lækka talsvert fyrr en kemur að lokum stóriðjuframkvæmda og núverandi uppsveiflu í efnahagslífinu þ.e. árið 2007. Við spáum því að kaupmáttur launa aukist um 1,4% á næsta ári en dragist saman um 2,6% á árinu 2007. Kemur þetta fram í nýlegri Þjóðhagsspá okkar.