Sjá má vísbendingar um minnkandi spennu á fasteignamarkaði. Velta á fasteignamarkaði í vikunni var sú minnsta frá því í lok ágúst, eða 5,1 milljarður króna, samkvæmt tölum Fasteignamats ríkisins. Veltan er hins vegar 11% meiri en á sama tíma í fyrra. Veltan hefur lengst af ári verið töluvert meiri en í fyrra, eins og sést á meðfylgjandi línuriti sem sýnir breytingu á milli ára á fjögurra vikna meðalveltu.

Línuritið sýnir einnig að veltuaukningin hefur minnkað hratt frá því í haust og aukning á fjögurra vikna meðalveltu er nú 38% en var tæp 150% um mánaðamótin september og október. Þessi þróun er vísbending um að farið sé að draga úr spennu á fasteignamarkaði. Önnur vísbending í sömu átt sást í tölum Hagstofunnar um þróun vísitölu neysluverðs sem birtar voru í vikunni. Þar mátti sjá að hægt hefur á hækkun húsnæðisliðarins á milli mánaða.