Sterkar vísbendingar eru um að nokkurt ójafnvægi sé á vinnumarkaði á Íslandi. Þetta kemur fram í markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka. Vandinn er helst fólginn í því að samkeppni um störf meðal háskólamenntaðra er sífellt að harðna, á meðan vísbendingar eru um að framundan sé skortur á ýmsu iðnmenntuðu fólki og fólki með menntun tengdri ferðaþjónustu.

Bent er á í greiningunni að þróunin þarf ekki að öllu leyti að vera slæm þar sem mikill fjöldi háskólamenntaðra gæti hugsanlega skapað svigrúm til sóknar í atvinnugreinum sem ekki er einfalt að sjá fyrir núna. Engu að síður bendir Greiningardeildin á að nauðsynlegt sé að stjórnvöld séu vakandi fyrir stöðunni og að fólk sem hyggur á nám íhugi stöðuna á vinnumarkaði. „Ef heldur fram sem horfir er raunveruleg hætta á að háskólamenntaðir flýji land og/eða framþróun í sumum greinum, eins og ferðaþjóunustu, verði hægari en ella vegna skorts á hæfu starfsfólki. Hvort tveggja kæmi til með að draga úr hagvexti í framtíðinni,“ segir í greiningunni.