Framleiðsla í heiminum féll hratt í desember sem er vísbending um að samdrátturinn í Bandaríkjunum muni dragast langt fram eftir ári, ef ekki lengur, og að atvinnuleysi muni vaxa á heimsvísu. Þetta kemur fram í WSJ.

Vísitala sem mælir breytingar í bandarískum framleiðslufyrirtækjum náði lægsta gildi sínu frá því í júní 1980, þegar hagkerfið var við það að lenda í miklum samdrætti, að því er WSJ hefur eftir Institute for Supply Management. Engin átján framleiðslugreina sýndi vöxt og sumar hafa dregist saman í meira en tvö ár.

Nýjar pantanir í lágmarki

Nýjar pantanir, sem eru mælikvarði á framtíðarhorfur, náði sínu lægsta gildi frá því mælingar hófust fyrir 60 árum.

Önnur könnun sem mælir framleiðslu í heiminum var einnig neikvæð. Í frétt WSJ segir að framleiðsla sé lykilþáttur í landsframleiðslu og slík gögn séu oft vísbendingar um framtíðarvöxt.

Evrusvæðið í lágmarki

Samdráttur var í Þýskalandi, Frakklandi, á Ítalíu og Spáni og könnun Markit Economics fyrir evrusvæðið fór í fyrri mánuði niður í lægsta gildi sitt frá því mælingar  hófust fyrir ellefu árum. Sömu sögu er að segja um mælingar í Rússlandi og Asíu.

Veikleikinn þegar kominn inn í hlutabréfaverð?

Þrátt fyrir þessar fréttir hækkuðu hlutabréfamarkaðir í heiminum almennt í gær. WSJ segir að sumir greinendur telji að veikleikinn í hagkerfum heimsins sé þegar kominn inn í hlutabréfaverðið.