Velta í dagvöruverslun jókst um 5,3% í júní síðastliðnum miðað við fast verðlag samanborið við sama mánuð í fyrra, segir í frétt frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Hins vegar segir stofnunin vísbendingar um að vöxtur einkaneyslu sé að minnka.

Á hlaupandi verðlagi var hækkunin 17,5% á milli ára og samkvæmt veltutölum er enn aukning í dagvöruveltu bæði á föstu og hlaupandi verðlagi í júní miðað við árið á undan, segir í fréttinni.

?Þegar leiðrétt hefur verið vegna dagatalsáhrifa er 12 mánaða aukning á föstu verðlagi minni en í síðastliðnum mánuði eða 2,4% í dagvöruverslun og 3,8% í áfengisverslun. Hér má því sjá vísbendingu þess að vöxtur einkaneyslunnar sé að minnka," segir Rannsóknarsetur verslunarinnar.

?Vissulega eru verðlagsáhrif nokkur en það vekur helst athygli að vöxtur veltunnar m.t.t. dagatalsáhrifa er kominn niður í 2,4% milli ára."