Margt bendir til þess að eftirspurn í hagkerfi heimsins sé að dragast saman, að því er kemur fram í frétt Financial Times. Nýjar hagtölur frá Kína, Ástralíu og Kóreu renna stoðum undir þessa kenningu. Framleiðsla í Kín a dróst saman í apríl vegna samdráttar í pöntunum erlendis frá og nýjar tölur frá bandaríkjunum sýna að atvinnulausum fjölgaði um 119.000. Það er þó ögn skárra en spár höfðu gert ráð fyrir en hópur hagfræðinga hafði spáð því að atvinnulausum myndi fjölga um 150.000 í mánuðinum.

Hagvöxtur í fyrsta ársfjórðungi í Tævan, sem reiðir sig mjög á útflutning til Kína, var aðeins 1,5% á ársgrundvelli, en spár gerðu ráð fyrir því að hann yrði í kringum þrjú prósent. Á sama tíma í fyrra var hagvöxtur í Tævan 3,7%.

Innkaupavísitala framleiðslugreina í Ástralíu, sem notuð er til að mæla virkni framleiðslugeirans, lækkaði um ein 7,7 stig og var 36,7 stig í apríl. Hefur hún ekki verið lægri í fjögur ár. Ef vísitalan er undir fimmtíu stigum er gert ráð fyrir því að samdráttur ríki í geiranum.

Þá ákváðu stjórnvöld í Seoul í S-Kóreu að veita þarlendum útflutningsfyrirtækjum fjárhagsaðstoð sem nema á um 10 milljörðum dala, en útflutningur dróst saman um 2,4% milli mars og apríl.

Ljósu punktarnir eru aukin framleiðsla í Bretlandi og Japan, en gengisveikingar hafa styrkt útflutningsgeirana í löndunum tveimur.