Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) eru sterkar vísbendingar á lofti um hraðari samdrátt en áður í aðildarríkjunum stofnunarinnar.

Mæling helstu hagvísa (e. composite of leading indicators) fyrir júnímánuð bendir til þess að horfurnar fari versnandi í öllum helstu iðnríkjum heims.

Öllu bjartara er um að horfast í sumum ríkjum sem ekki eiga aðild að OECD og benda hagvísar til áframhaldandi hagvaxtar í Brasilíu og Kína en að sama skapi niðursveiflu á Indlandi og Brasilíu.

Mæling OECD á helstu hagvísum er ætlað að gefa vísbendingar um stefnubreytingar í hagsveiflum til skemmri tíma og veita innsæi hvort að hagkerfi séu að vaxa eða dragast saman.

Samkvæmt mælingunni þá féll tölugildi helstu hagvísa á OECD svæðinu um 0,6 stig í júní og er 5,0 stigum lægra en fyrir ári síðan. Gildið fyrir Bandaríkin féll um 0,2 stig og er 5,4 stigum lægra en á sama tíma fyrra. Fallið á evrusvæðinu er 0,8 stig og er gildið 5,2 stigum lægra en á síðasta ári.

Gildið lækkaði um 0,8 stig í Bretlandi og var 4,8 stigum lægra en fyrir ári síðan. Í Kanada lækkaði það um 1,1 stig og var 3,9 stigum lægra en fyrir ári, í Frakklandi var lækkunin 0,9 stig og var gildið 5,1 stigi lægra en fyrir ári síðan. Helstu hagvísar Þýskalands lækkuðu um 0,9 stig í júní og voru 5,4 stigum lægri en fyrir mánuði síðan og á Ítalíu lækkaði gildið um 0,7 stig og stóð 4,5 stigum lægra en fyrir ári síðan.

Góðra tíðinda er helst að leita utan OECD, en eins og áður sagði benda helstu hagvísar til áframhaldandi hagvaxtar í Kína og Brasilíu, en í Kína hélst gildi þeirra óbreytt í júní og stóð 0,8 stigum hærra en á sama tíma í fyrra. Í Brasilíu hækkaði gildið um 2,2 stig og var 1,4 stigi hærra en fyrir ári.