Vísindamenn hafa sett spurningamerki á hvort hverfandi ónæmi við Covid-19 veirunni geti haft áhrif á gagnsemi bóluefna. Þrátt fyrir það hafa fjárfestar hafa tekið vel í jákvæðar niðurstöður úr klínískum tilraunum.

Rannsókn King‘s College London háskólans, sem hefur þó ekki verið ritrýnd, gefur til kynna að mótefni fyrrum sjúklinga hafi minnkað töluvert á nokkrum mánuðum frá smiti. Niðurstaðan hefur leitt til spurninga um hversu lengi bóluefni geti komið í veg fyrir að fólk fái sjúkdóminn.

Herb Sewell, fyrrum prófessor við ónæmisfræði í Nottingham háskólanum, segir að niðurstaða King College rannsóknarinnar virðist gefa til kynna að mótefnið við Covid-vírusnum hverfi hraðar en hjá öðrum kórónaveirum, líkt og MERS-CoV sem hafði mótefnasvörun (e. antibody responese) sem entist í að minnsta kosti tvö ár.

„Ef bóluefnasvörun hverfur svona líkt og náttúrulega svörunin, þá þýðir það við þurfum að gefa bóluefni reglulega,“ er haft eftir Sewell í frétt Financial Times .

Allir þátttakendur klínískrar tilraunar mynduðu mótefni

Þrátt fyrir þessar áhyggjur hækkuðu hlutabréf líftæknifyrirtækisins Moderna um 6% í gær eftir að fyrirtækið deildi jákvæðum niðurstöðum frá fyrstu stigum klínískra tilrauna þar sem allir 45 þátttakenda höfðu framleitt mótefni eftir að hafa fengið tilraunalyfið.

Betty Diamond, yfirmaður Feinstein Institutes for Medical Research í New York segir að niðurstöður Moderna væru „hughreystandi“ en þörf væri á frekari upplýsingum um hversu lengi mótefnasvörunin vari. Mótefnastig þátttakenda hafi byrjað að minnka 41 degi eftir að þeir fengu bóluefnið, en tilraunin náði einungis til 57 daga.

„Bóluefni mynda mótefnisvaka (e. antigen) öðruvísi en náttúruleg smit og nota öðruvísi ónæmisglæði (e. adjuvants), og því er engin ástæða fyrir að gera ráð fyrir að ónæmisminnið verði eins hjá bóluefninu og í náttúrulegum smitum,“ er haft eftir Diamond.