Vísir hf í Grindavík ætlar að reka áfram ferskfiskvinnslu og frystingu á Djúpavogi í eitt ár. Starfsmenn Djúpavogs í þessum störfum eru rúmlega 30 talsins. Við þurrsöltun vinna rúmlega 20 manns og flytja þeir til Grindavíkur í haust.

Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir í samtali við Morgunblaðið þetta skila sér í heldur minni fækkun starfsmanna en til stóð. Í blaðinu segir að Pétur ætli að fara austur á Djúpavog í dag til að kynna starfsfólki og heimamönnum breyttar áætlanir fyrirtækisins. Í dag muni jafnframt skýrast hve margir starfsmenn fylgja þurrsöltuninni til Grindavíkur. Reikna megi með því að það geti orðið á bilinu 15 - 20 manns.