*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 20. september 2019 14:22

Vísir og Þorbjörn stefna á sameiningu

Risasamruni í sjávarútvegi er í bígerð í Grindavík en aflaheimildir nýs félags munu nema rúmlega 44.000 tonnum.

Ritstjórn

Eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf. og Þorbjarnar hf. hafa hafið viðræður um að leggja eignir félaganna inn í nýtt fyrirtæki og standa saman að rekstri nýs sjávarútvegsfyrirtækis í Grindavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum. Bæði eru fyrirtækin svipuð að stærð og hafa unnið talsvert saman. 

Fyrirtækin eiga meðal annars félög saman á borð við Haustak, Codland og sölufyrirtæki á Grikklandi. Ef að sameiningunni verður mun nýtt félag verða með um 44.000 þúsund tonn af aflaheimildum, um 16 milljarða veltu og 600 starfsmenn. 

Í tilkynningunni segir að markmið eigenda félaganna, sem allir verða áfram hluthafar, sé ð búa til nýtt og kröftugt fyrirtæki sem jafnframt getur fylgt eftir tækninýjungum og svarað aukinni kröfu markaðanna. Einnig mun hið nýja fyrirtæki tryggja bolfiskvinnslu og styrkja samfélagið í Grindavík enn frekar. 

Áætlað er að að samruni af þessu tagi taki allt að 3 árum og er ekki reiknað með uppsögnum í tengslum við hann, þó má að sjálfsögðu gera ráð fyrir breytingum á útgerðarháttum og mögulega einhverjum tilfærslum á störfum á þeim tíma.

Gangi viðræður um stofnun nýs félags samkvæmt áætlun, má búast við að það taki til starfa um áramót, en þangað til verður rekstur fyrirtækjanna tveggja óbreyttur.