Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, tók sitt hæsta stökk frá upphafi þessara mælinga í könnun sem Gallup framkvæmdi í maí og júníbyrjun fyrir Samtök atvinnulífsins (SA) og Seðlabankann. Gildið hækkaði um rúmlega 100 stig frá síðustu könnun, úr 40 í 145, en áður var hæsta stökkið 70 stig í mars 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SA.

Þar segir að rúm 40% stjórnenda töldu aðstæður góðar, svipað hlutfall hvorki góðar né slæmar en aðeins 16% að þær væru slæmar. Fleiri stjórnendur töldu stöðuna vera góða en slæma í öllum atvinnugreinum, en jákvæðast var matið í þjónustugreinum og verslun.

Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði er í sögulegu hámarki, eða 191 þar sem 200 er hæsta gildi, þar sem 84% stjórnenda telja að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, 4% að þær verði verri en 12% að þær verði óbreyttar.

Aldrei fyrr hefur mæling á skorti á starfsfólki minnkaði meira milli kannana en fjöldi fyrirtækja sem búa við skort tvöfaldaðist, þar sem 23% fyrirtækjanna telja skort fyrirliggjandi samanborið við 11% fyrir þremur mánuðum. Mestur er skorturinn í byggingarstarfsemi þar sem 60% fyrirtækja telja starfsfólk skorta, þá 32% fyrirtækja í þjónustu og 28% fyrirtækja ferðaþjónustu.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að fyrirtækin áforma mikla fjölgun starfsfólks á árinu. 38% stjórnenda búast við fjölgun starfsmanna, 9% við fækkun og rúmlega helmingur við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum, en 26 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni.

Í tilkynningu SA segir að ætla megi að starfsfólki könnunarfyrirtækjanna fjölgi um 1,8%. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um rúmlega 2.200 á næstu sex mánuðum, eða til ársloka. Fjölgunin sé 2.800 hjá fyrirtækjum sem sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkunin 600 hjá þeim sem búast við fækkun. Stjórnendur í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi búast við mestri fjölgun starfsfólks en þar á eftir koma stjórnendur í þjónustu og verslun.