Vísitala framleiðsluverðs lækkaði um 0,6% í júlí frá fyrri mánuði og nam hún 200,1 stigi, en hún miðast við gildið 100 á fjórða ársfjórðungi ársins 2005.

Lækkar fyrir útflutningsvörur, ekki vörur seldar innanlands

Hækkaði vísitalan um 0,1% fyrir vörur sem seldar voru innanlands en lækkaði um 0,9% fyrir vörur sem voru fluttar út. Ef horft er til júlímánaðar fyrir ári síðan hefur vísitala framleiðsluverðs lækkað um 7,5%.

Vísitalan fyrir sjávarafurðir lækkaði um 2,1% frá fyrri mánuði, og stóð hún í 257,4 stigum. Hækkaði hún aftur á móti fyrir stóriðju um 0,5% og stóð í 177,1 stigi. Fyrir matvæli hækkaði hún um 0,7% frá fyrri mánuði og stóð í 177,4 stigum en fyrir annan iðnað lækkaði hún um 1,1% niður í 177,4 stig frá fyrri mánuði.

Ef horft er til síðustu 12 mánuða hefur verðvísitala sjávarafurða lækkað um 8,1%, verð á afurðum stjóriðju hefur lækkað um 16,0% en verð á matvælum hefur hækkað um 3,0%.