Vísitala framleiðsluverðs fyrir fyrsta ársfjórðung 2006 er 106,6 stig og hækkar um 6,6% frá fjórða ársfjórðungi, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Vísitala framleiðsluverðs fyrir sjávarafurðir er 104,9 stig og hækkar um 4,9% (vísitöluáhrif eru 2,0%). Vísitala framleiðsluverðs fyrir annan iðnað er 107,8 stig og hækkar um 7,8% (vísitöluáhrif eru 4,6%). Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 0,8%, launavísitala um 4,4% og meðalverð á erlendum gjaldeyri um 5,5%.

Hagstofan segir að nú séu í fyrsta sinn birtar undirvísitölur fyrir framleiðslu sem seld er innanlands og framleiðslu sem seld er úr landi. Sú síðarnefnda er einnig birt án sjávarafurða. Þessi útreikningur hefst með fjórða ársfjórðungi 2005 og af þeim sökum er viðmiði vísitölunnar breytt þannig að hún verður 100 á þeim ársfjórðungi í stað sama ársfjórðungs 2003.

Áhrif þessa á hlutfallslegar verðbreytingar milli ársfjórðunga eru engin. Allar tölur í tilkynningunni miðast við vísitöluna eftir viðmiðsbreytinguna.

Vísitala framleiðsluverðs fyrir fyrsta ársfjórðung 2006 fyrir vörur sem framleiddar voru og seldar innanlands er 101,2 stig, en það jafngildir 1,2% verðhækkun frá fjórða ársfjórðungi 2005 (vísitöluáhrif eru 0,4%). Vísitala framleiðsluverðs fyrir útfluttar afurðir er 109,5 stig, sem er hækkun um 9,5% frá fyrri ársfjórðungi (vísitöluáhrif eru 6,1%). Vísitala framleiðsluverðs fyrir útfluttar afurðir án sjávarafurða verður 117,7 stig en það er hækkun um 17,7% frá fyrri ársfjórðungi.

Frá fyrsta ársfjórðungi 2005 hefur vísitalan í heild hækkað um 6,8%. Vísitala framleiðsluverðs fyrir sjávarafurðir hefur hækkað um 5,2% og vísitala framleiðsluverðs fyrir annan iðnað hefur hækkað um 7,9%.

Grunnur vísitölu framleiðsluverðs er endurskoðaður ár hvert, en hann er notaður til að vega saman verðbreytingar í vísitölunni. Grunnurinn geymir nýjustu tiltæku upplýsingar um framleiðsluverðmæti íslenskra fyrirtækja. Þannig er leitast við að láta vísitöluna endurspegla samsetningu framleiðslunnar eins vel og kostur er á hverjum tíma.