Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 354,1 stig í febrúar 2008 og lækkar um 0,9% frá fyrra mánuði samkvæmt vísitölu Fasteignamats Ríkisins (FMR).

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun vísitölu húnsnæðisverðs frá því í janúar 2000 byggða á gögnum frá FMR.

Vísitalan hefur þó hækkað um 0,6% síðastliðna þrjá mánuði og um 12,7% á milli ára og segir Morgunkorn Glitnis hækkun íbúðaverðs undanfarin ár vera einn af leiðandi þáttum í hækkun vísitölu neysluverðs.

Fermetraverð fjölbýlis hækkaði um 0,4% í febrúar, en lækkaði um 3,5% í sérbýli. Frá október 2007 hefur verð sérbýlis lækkað um tæplega 2% og endurspeglar það erfiða fjármögnun sem kemur sér í lagi niður á dýrari eignum, segir í Morgunkorninu.

Þar segir ennfremur, „Verulega hefur hægt á húsnæðismarkaði í upphafi árs. Sé leiðrétt fyrir verðbreytingu íbúðarhúsnæðis, dróst samanlögð velta með húsnæði á höfuðborgarsvæðinu í janúar og febrúar saman um 35,4% frá sama tíma 2007. Þinglýstir samningar í janúar og febrúar voru samanlagt um 39% færri en á sama tíma 2007. Við reiknum með því að íbúðaverð komi til með að lækka frekar á þessu ári.“