Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um tæplega eitt prósent í síðasta mánuði, sem er mesta lækkun á milli mánaða í tæp fjögur ár. Hagfræðingur segir í samtali við RÚV að minni eftirspurn eftir dýrari eignum geti skýrt þessa lækkun.

Íbúðaverð hefur farið hækkandi að undanförnum misserum en nú virðist vera að hægja á þeirri þróun. Íbúðaverð lækkaði um 0,8% í júní, sem er mesta lækkun á milli mánaða síðan í desember árið 2010. Íbúðaverð lækkaði einnig í maí, því er um að ræða lækkun íbúðaverðs tvo mánuði í röð sem er að gerast í fyrsta skipti síðan árið 2010.

Arnar Ingi Jónsson, sérfræðingur á hagfræðideild Landsbankans, segir í samtali við RÚV að þetta gæti stafað að því að meiri eftirspurn er eftir minni íbúðum, væntanlega í fjölbýli, og minni eftirspurn eftir dýrari eignunum. Raunvirði á sérbýli hefur staðið í stað og er í rauninni óbreytt frá árinu 2011, eftir þessa lækkun sem varð undanfarna tvo mánuði. Arnar Ingi segist þó ekkert geta sagt til um hvort lækkunin haldi áfram.