Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í júní er 379,5 stig og hækkaði um 0,50% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 360,7 stig og hækkaði um 0,53% frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

© Getty Images (Getty)
Þá hefur verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1,2% aðallega vegna 6,9% hækkunar á kjöti og kjötvörum. Af því eru vísitöluáhrif 0,17%. Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 0,7%, þar af voru 0,1% áhrif af hækkun markaðsverðs og -0,02% áhrif af lækkun vaxta.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,2% og vísitalan án húsnæðis einnig um 4,2%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,2% sem jafngildir 9,2% verðbólgu á ári.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í júní 2011, sem er 379,5 stig, gildir til verðtryggingar í ágúst 2011. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 7.493 stig fyrir ágúst 2011.