Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,34% milli mánaða í ágúst og er hún nú 436,4 stig, en miðað er við að hún hafi verið 100 stig í maí árið 1988. Án húsnæðis er vísitala neysluverðs 396,5 stig og er hækkunin þá um 0,13% frá því í júlí.

Kemur þetta fram í tölum Hagstofunnar . Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins fyrir um mánuði síðan þá hafði vísitalan hins vegar lækkað um 0,17% frá fyrri mánuði.

Hækkaði verð á fatnaði og skóm um 6,6% enda er sumarútsölum víða lokið. Hefur það 0,25% áhrif á vísitöluna. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,5% sem hefur 0,23% áhrif. Hins vegar lækkaði verð á bensíni og olíum um 4,1% sem hefur 0,15% áhrif til lækkunar. Jafnframt lækkaði verð á bílum um 2,1%, sem hefur 0,13% áhrif.

Ef miðað er við síðustu 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,9%, en án húsnæðis hefur vísitalan þvert á móti lækkað um 0,9%.