Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í október 2014 er 423,2 stig (maí 1988 = 100) og hækkaði um 0,14% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 395,8 stig og hækkaði um 0,03% frá september, samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands .

Helstu áhrifavaldar á vísitöluna til lækkunar eru að verð á bensíni og olíum lækkaði um 3,5%. Kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns hækkaði hins vegar um 0,4%. Flugfargjöld hækka jafnframt um 11%.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,9% og vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 0,5%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,0% verðbólgu á ári, en 0,9% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis.