Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í júlí 2020, er 482,9 stig og hækkar um 0,15% frá fyrri mánuði. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 413,4 stig og hækkar um 0,17% frá júní 2020.

Sumarútsölur hafa verið í gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 3,6%. Síðustu ár hefur lækkun vegna áhrifa af útsölum verið talsvert meiri en er nú.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,0% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,3%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í júlí 2020, sem er 482,9 stig, gildir til verðtryggingar í september 2020. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 9.535 stig fyrir september 2020.