Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í apríl er 433,7 stig og hækkaði um 0,21% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði hinsvegar um 0,10% frá mars. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag.

Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka að hækkun vísitölu neysluverðs hafi verið talsvert minni í apríl en vænst var, og mælist verðbólga enn talsvert undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Auk þess hefur innlendur verðbólguþrýstingur verið hóflegri en búast mátti við í eftir kjarasamninga undanfarinna tveggja ára.

Niðurstöður Hagstofunnar sína að kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns hækkar um 0,4%  og bensín og olíur hækka um 2,9% í mánuðinum. Kannanir Íslandsbanka höfðu gefið vísbendingu um verulega yfirvofandi hækkun á reiknaðri húsaleigu, sem að mestu byggði á verðþróun íbúðarhúsnæðis. Svo varð hinsvegar ekki raunin.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,6% og vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 0,2%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2016, sem er 433,7 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2016. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 8.563 stig fyrir júní 2016.