Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í nóvember 2017 er 446,0 stig og lækkar um 0,16% frá fyrra mánuði að því er kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 384,2 stig og lækkar um 0,49% frá október 2017.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkar um 0,7% sem hefur áhrif til hækkunar vísitölunnar um  0,14%. Flugfargjöld til útlanda lækka um 19,7% sem hefur áhrif til lækkunar á vísitölu um 0,22%. Þá lækka föt og skór um 3,5% sem hefur áhrif til lækkunar vísitölunnar um 0,13%.

Verðbólga síðustu tólf mánuði mælist því 1,7% en ef húsnæðisliðurinn er dreginn frá hefur átt sér stað verðhjöðnun um 2,3%. Hagfræðideild Landsbankans hafði spáð 0,10% lækkun vísitölu neysluverðs í nóvember. Íslandsbanki spáði óbreyttri VNV og Arion spáði hækkun um 0,10% í mánuðinum.