Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,68% í desember 2007 sem er meiri hækkun en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir en í spám þeirra var gert ráð fyrir 0,4-0,5% hækkun vísitölunnar í desember.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,9% en undanfarna þrjá mánuði mælist hækkun hennar um 1,8% sem jafngildir 7,6% verðbólgu á ári. Í spá greiningardeilda bankanna var gert ráð fyrir 5,6 eða 5,7% verðbólgu á árinu.

Á vef Hagstofu Íslands segir að kostnaður vegna eigin bifreiðar hafi hækkað um 1,5%, aðallega vegna hækkunar á verði eldsneytis og dýrari bíla. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1,5%. Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 0,9% en þar af voru 0,13% áhrif vegna hækkunar vaxta og 0,04% vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis.