Vísitala neysluverðs hækkar um 1,38% á milli mánaða en miðað við verðlag í miðjum febrúar er vísitalan 286,2 stig. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 254,9 stig og hækkaði um 1,55% frá janúar.

Á myndinn hér til hliðar má sjá hvernig vísitala neysluverðs hefur þróast síðastliðið ár.

Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands kemur fram að vetrarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 9,1%.

Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,0% (0,20%), þar af voru 0,15% áhrif vegna hærri raunvaxta og 0,05% vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis. Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um 0,9% (0,12%).

Kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 2,5% (vísitöluáhrif 0,36%). Þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 2,6% (0,16%) og á bensíni og olíum um 3,6% (0,18%).

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,3% sem jafngildir 9,3% verðbólgu á ári (8,6% fyrir vísitöluna án húsnæðis).