Vísitala neysluverðs (VNV) mun hækka um 0,1% milli desember og janúar samkvæmt spá Greiningar Glitnis. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga minnka í 5,7% úr 5,9%. Búast má við áframhaldandi verðhækkun matvöru vegna lækkunar gengis krónunnar, hækkunar á heimsmarkaðsverði matvöru og innlendrar launahækkunar.

Verðhækkun eldsneytis verður hins vegar óveruleg en bensínverð á erlendum mörkuðum hefur frekar verið að lækka undanfarið. Hækkun opinberra gjalda fellur alla jafna að mestu til í byrjun árs og er reiknað með að sú verði einnig raunin í ár. Á móti vegur að vetrarútsölur á fötum og skóm hefjast yfirleitt milli jóla og nýárs eða í byrjun janúar. Hér er reiknað með að útsöluáhrif í janúar verði svipuð og á allra síðustu árum en útsölur þessar hafa verið að færast framar í tíma og verðlækkun á þeim verið meiri, samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis. Verðhækkun matvöru í pípunum Nokkur verðhækkunarþrýstingur er til staðar á heimsmarkaði fyrir matvöru sem kemur fram bæði á erlendum og innlendum matvörum. Ástæðan hefur meðal annars verið hraður hagvöxtur í nýmarkaðsríkjum, veðurfarsbreytingar í heiminum og hækkun olíuverðs. Verðhækkun hrávöru á heimsmarkaði virðist skila sér hægt inn í verð á matvöru hér. Matvöruverð á Evrópska efnahagssvæðinu hefur hækkað á undanförnu ári um ríflega 5% á meðan hækkunin hér (án skattalækkunar síðastliðinn mars) hefur aðeins verið ríflega 2%. Jafnframt er til staðar nokkur verðþrýstingur á innlendum matvörum vegna örrar verðhækkunar innlendra kostnaðarþátta og þenslu. Greining Glitnis gerir ráð fyrir að þessi þrýstingur muni skila sér í hærra matvöruverði á allra næstu vikum. Hægist um á húsnæðismarkaði Í desembermælingu vísitölunnar hækkaði húsnæðisverð um 0,2% að meðaltali. Hækkunin var leidd af 0,7% hækkun á höfuðborgarsvæðinu en á móti vó að húsnæðisverð á landsbyggðinni lækkaði um 1,5%. Í næstu mælingu er gert ráð fyrir að verðhækkun verði einnig lítil og að farið sé að hægja á verðhækkun húsnæðis. Vaxtahækkun undanfarnar vikur og erfiðara aðgengi að lánsfé er farið að hafa áhrif.