Vísitala neysluverðs í janúar 2007 er 266,9 stig (maí 1988=100) og hækkaði um 0,26% frá fyrra mánuði, segir í tilkynningu Hagstofu Íslands.

Markaðsaðilar spáðu því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0-0,2%, að sögn greiningardeildar Landsbankans, sem spáði 0,2% hækkun.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,9%, en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 6,0%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,1% verðbólgu á ári (0,5% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 245,3 stig, hækkaði um 0,12% frá því í desember.

Vetrarútsölur eru í fullum gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 12,1% (vísitöluáhrif -0,58%), segir í tilkynningunni.

Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 2,0% (0,27%) og verð á nýjum bílum um 2,3% (0,15%). Þá hækkuðu gjöld tengd húsnæði um 13,3% (0,14%).


Meðalvísitala neysluverðs árið 2006 var 260,6 stig, 6,8% hærri en meðalvísitalan 2005. Samsvarandi breyting var 4,0% árið 2005 og 3,2% árið 2004.

Meðalvísitala neysluverðs án húsnæðis var 240,7 stig árið 2006, 4,8% hærri en árið 2005. Samsvarandi breyting var 0,9% árið 2005 og 2,1% árið 2004.

Vísitala neysluverðs í janúar 2007, sem er 266,9 stig, gildir til verðtryggingar í febrúar 2007. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 5.270 stig fyrir febrúar 2007, segir í tilkynningunni.