Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,3% frá apríl 2006 til jafnlengdar í ár, segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Dregið hefur úr verðbólgu síðustu tvo mánuði, aðallega vegna lækkunar virðisaukaskatts og afnáms vörugjalda þann 1. mars síðastliðinn. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,2%.

Gefið hefur verið út sérstakt hefti Hagtíðinda um vísitölu neysluverðs frá apríl 2006 til apríl 2007. Í heftinu er fjallað um vísitölu neysluverðs og birtar töflur um þróun hennar síðustu tólf mánuði og vikið að árlegri endurnýjun á grunni vísitölunnar í mars 2007. Fjallað er sérstaklega um fastskattavísitölu neysluverðs, sem reiknuð var í fyrsta sinn í mars 2007 og breytingar sem verða á tímasetningu verðsöfnunar vegna vísitölu neysluverðs í janúar 2008.