Arion banki var eina félagið í kauphöll Nasdaq á Íslandi sem lækkaði í viðskiptum dagsins, en í mjög litlum viðskiptum þó, eða fyrir tæplega hálfa milljón krónur. Lækkaði gengi bréfanna um 0,42%, niður í 71,50 krónur.

Ekki voru mikil viðskipti með bréf flestra annarra félaga í kauphöllinni, fyrir utan Marel, en þau námu 1,6 milljörðum króna, og hækkaði verðgildi bréfanna í þeim einnig mest, eða um 2,09%, upp í 488,0 krónur.

Næst mesta hækkunin var á gengi bréfa Origo, einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 2 milljónir, en bréfin hækkuð um 1,96%, upp i 23,45 krónur. Fyrir utan Marel voru mestu viðskiptin með bréf eins félags, í fasteignafélaginu Reitum, eða fyrir 147 milljónir króna. Hækkaði gengi bréfanna um 0,27%, upp í 73,00 krónur.

Samanlagt námu heildarviðskiptin 2 milljörðum króna, en úrvalsvísitalan hækkaði í þeim um 1,36%, upp í 1.825,68 stig. Þar með hefur úrvalsvísitalan hækkað um 5,60% á einum mánuði og 13,14% innan ársins. Hefur hún ekki verið hærri síðan 8. júní 2017 þegar hún náði 1.821,51 stigi.