Úrvalsvísitalan hefur lækkað mikið hér á landi það sem af er ári bæði í sögulegum og alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir að alþjóðlegar hrakfarir ársins hafi á margan hátt farið mildari höndum um Ísland en flest önnur lönd. Á fyrri hluta ársins féll hún um 21,5%, sem er það fjórða mesta af þeim 19 löndum sem Viðskiptablaðið tók saman upplýsingar um.

Myndin breytist hins vegar mikið ef horft er fram hjá tæknirisanum Marel, sem hafði lækkað um ríflega 30% á árinu þegar það var hálfnað.

Félagið stóð undir 70% af lækkun íslensku Úrvalsvísitölunnar OMXI10 á tímabilinu og hátt í 60% af yfir 360 milljarða króna lækkun heildarmarkaðsvirðis á aðalmarkaði, ef horft er fram hjá þeim félögum sem við bættust á árinu og þeim arði sem greiddur hefur verið út til hluthafa. Arion banki og Kvika – sem mest markaðsvirði misstu á eftir Marel, um 85 milljarða – stóðu sín á milli undir 23,5% , Arion ögn stærri hluta, en önnur félög náðu ekki 10%.

Heildarvísitalan skipar sér fyrir miðju lækkunarlistans

Eins og sjá má lækkaði Heildarvísitala Kauphallarinnar nokkru minna, eða um hátt í 15%, sem setur það í 10. sæti af löndunum 18 og rétt fyrir miðju á heildarlistanum, sem einnig inniheldur vísitölur fyrir Afríku, Evrópu, nýmarkaðsríki og heiminn allan.

Fíllinn í Höllinni

Marel hefur um árabil verið stærsta fyrirtækið í Kauphöll Íslands og Úrvalsvísitölunni, sem er það sem kallað er flot-vegin – vægi hvers félags ræðst af heildarmarkaðsvirði þeirra hlutabréfa sem ætla má að myndi grunn að virkum viðskiptum – og samanstendur af 10 af 22 félögum á aðalmarkaði í dag.

Jafnvel eftir lækkun ársins og innkomu tveggja nýrra félaga á aðalmarkað, ofan á þau sem við bættust í fyrra, er Marel vel yfir fimmtungi alls markaðsvirðis þar, og innan Úrvalsvísitölunnar vegur það ríflega þriðjung, sem þó er lækkun frá þeim upp undir helmingi sem vægið hefur verið síðustu ár.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.