Kauphöll Nasdaq á Íslandi var grænleit í viðskiptum dagsins en úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 2,37% og stendur nú í 2.094 stigum. Alls hækkuðu hlutabréf þrettán félaga af þeim nítján sem skráð eru í kauphöllinni, bréf fjögurra félaga stóðu í stað og bréf tveggja félaga lækkuðu. Hlutabréf Heimavalla hafa nýlega verið skráð úr kauphöllinni.

Mest hækkuðu hlutabréf Marel eða um 3,79% í mestri veltu sem nam 604 milljónum króna. Bréf félagsins standa nú í 685 krónum en hæst fóru þau í 743 krónur um miðjan september. Næst mest hækkun var á hlutabréfum Origo um 1,83% sem nú standa í 30,55 krónum.

Sjá einnig: Verðmat segir Sýn 9% verðmætara

Hlutabréf Sýnar hækkuðu um 0,52% í 15 milljóna króna veltu. Bréf félagsins standa nú í 29,1 krónu. Í verðmati Jakobsson Capital, sem birt var 5. október, er hvert hlutabréf metið á 31,5 krónur.

Hlutabréf Kviku banka lækkuðu lítillega og standa þau nú í 11,16 krónum. Sömuleiðis lækkuðu bréf Sjóvá sem nú standa í 20,05 krónum. Hlutabréf Icelandair stóðu í stað í 21 milljóna króna veltu en hvert bréf kostar 0,9 krónur.