Vísitala neysluverðs í apríl 2006 er 255,2 stig og hækkaði um 1,14% frá fyrra mánuði, segir í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 236,1 stig og hækkaði um 1,07% frá því í mars.

Hækkunin er nokkuð umfram spár greiningaraðila, sem spáðu því að vísitalan myndi hækka um 075%-0,9%.

Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 6,7% (vísitöluáhrif 0,42%) og verð á nýjum bílum hækkaði um 4,1% (0,24%).

Verð á eigin húsnæði í vísitölu neysluverðs hækkaði um 1,8% (0,30%), þar af voru áhrif af hækkun vaxta 0,06% en 0,24% af hækkun markaðsverðs. Verð á fötum og skóm hækkaði um 3,0% (0,14%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,2% sem jafngildir 9,1% verðbólgu á ári (8,2% fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Vísitala neysluverðs í apríl 2006, sem er 255,2 stig, gildir til verðtryggingar í maí 2006. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 5.039 stig fyrir maí 2006.