Gengi hlutabréfa hefur verið á hraðri uppleið víða um heim upp á síðkastið. Dow Jones-hlutabréfavísitalan fór nokkrum sinnum yfir 14 þúsund stiga múrinn í dag en annað eins hefur ekki sést síðan í góðærinu svokallaða árið 2007. Þá rauk C20-vísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn upp um 2,23% í dag. Vísitalan endaði í 547,66 stigum og hefur hún aldrei verið hærri. Sömu sögu er að segja af Úrvalsvísitölunni í Kauphöllinni hér á landi. Vísitalan hækkaði um 0,8% í dag, endaði í rúmum 1.182 stigum og hefur hún ekki verið hærri. Vísitalan var tekin upp á Nýársdag árið 2009.

AP-fréttastofan segir hækkunina á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag skýrast af jákvæðum tölum af vinnumarkaði og góðum tíðindum af bílasölu.

Á vef danska viðskiptablaðsins Börsen segir að góð stemning hafi verið á hlutabréfamarkaði í vikunni þrátt fyrir orðróm um að knattspyrnuliðið Bröndby kunni að fara í þrot og rekstrarvandi Vestjysk Bank geti leitt til þess að hann hljóti sömu örlög eða verði tekinn yfir af öðrum banka.

Í Börsen er jafnframt bent á að þróunin á danska markaðnum í dag sé í samræmi við hækkanahrinu á meginlandi Evrópu en helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu um og yfir 1%.