Hlutabréf á markaði og vísitölur lækkuðu í Asíu í dag og er lækkun vísitölunnar sú mesta í þrjá mánuði. Í frétt á vef Bloomberg er ástæða þessa sögð vera vangaveltur um að HSBC Holdings og fleiri bankar muni tilkynna um enn meira tap tengt viðskiptum á bandaríska fasteignamarkaðinum.

Leikjaframleiðandinn Nintendo leiddi lækkanirnar en ríflega tveir þriðju að tekjum fyrirtækisins koma erlendis frá. Lækkun Nintendo er rakin til lækkunar Bandaríkjadals gagn vart japanska jeninu. PetroChina og Woodside Petroleum lækkuðu einnig í framhaldi af lækkun á verði hráolíu.

Jenið hækkaði í dag gagnvart Bandaríkjadal og í fyrsta sinn í eitt og haft ár jafngilda tæplega 110 jen einum dal.

Ál hækkaði í verði í Asíu í dag þrátt fyrir að eftirspurn sé takmörkuð að því er segir á fréttavef Dow Jones. Ástæða hækkunarinnar er rakin til lítilla birgða. Hindalco Industries hækkaði um 2,4% og National Alumininum um 0,9%. Þrátt fyrir að verð á áli hafi hækkað um 2% milli ársfjórðunga er verðið samt sem áður 10% lægra en á sama tíma í fyrra.