Vísitölusjóður fjármálafyrirtækisins GAM Management, GAMMA: Index, var settur á laggirnar 18. janúar síðastliðinn og er fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Aðrir skuldabréfasjóðir sem í boði eru hafa virka stýringu sem þýðir að kaup og sala verðbréfa er í höndum sjóðsstjóra hvers sjóðs. Vísitölusjóðir leitast við að fylgja ávöxtun ákveðinnar vísitölu og í tilviki Index-sjóðs GAMMA er það skuldabréfavísitala sem inniheldur ríkistryggð skuldabréf.

Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur hjá GAMMA, segir að slíkir sjóðir hafi áður verið aðgengilegir hér á landi en aldrei þeir sem eingöngu versla með skuldabréf.

„Rekstraraðilar hafa áður starfrækt verðbréfasjóði sem byggja á að fylgja ákveðinni vísitölu, til dæmis sjóðir sem fylgja íslensku hlutabréfavísitölunni og voru mjög vinsælir, en aldrei skuldabréfavísitölu.“

Hentar íslenskum markaði

Að sögn Valdimars hentar sjóðurinn vel þeim sem vilja fjárfesta til lengri tíma. Sjóðurinn henti íslenskum markaði þótt ekki hafi verið til slíkur sjóður áður.

„Mikið hagræði er fólgið í að fjárfesta í sjóði með fyrirfram þekktri fjárfestingarstefnu. Vísitölusjóðir henta mjög vel á Íslandi þar sem útgáfur skuldabréfa eru ekki mjög margar og flæði oft takmarkað. Ef sjóðir fylgja virkri eignastýringu skapast oft lítið svigrúm til að fylgja virkri stýringu. Þannig getur komið upp sú staða að fjárfestar borgi fyrir virka stýringu þótt sjóðurinn sé nánast hlutlaus, jafnvel að helmingur sjóðsins sé hlutlaus. Vísitölusjóðir eru þar af leiðandi gegnsærri og markvissari en stórir sjóðir með virka stýringu,“ segir Valdimar Ármann.

„Sjóðurinn fjárfestir í ríkistryggðum bréfum, það er íbúðabréfum Íbúðalánasjóðs og ríkisbréfum sem eru bæði óverðtryggð og verðtryggð í sama hlutfalli og skuldabréfin vigta í vísitölu GAMMA,“ en þar eru eingöngu ríkistryggð skuldabréf og hlutfall þeirra er eftir markaðsvirði. Talað er um hlutlausa stýringu þegar sjóðir fylgja ákveðinni vísitölu og leitast við að fylgja markaðsávöxtun sem best.

Sjá nánar í fylgiriti Viðskiptablaðsins um fjármál einstaklinganna.