„Það er alveg deginum ljósara að menn eru að ræða þessi leigumál. Flest öll veiðifélög eru búin að ljúka þeim málum við leigutaka. Það sem menn hafa fyrst og fremst verið að ræða sín á milli er neysluverðsvísitalan. Þessir leigusamningar voru bundnir neysluverðsvísitölu og hún hefur farið úr böndunum eins og menn vita. Á móti hefur markaðurinn þyngst í kjölfar hrunsins,“ segir Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga og Veiðifélags Hvítár.

Aðspurður hvort leigutakar vilji fá afslátt af leigunni eða afnema alveg tengingu leiguverðs og vísitölunnar svarar Óðinn: „Bæði og. Við sjáum til dæmis að í ódýrari ám er markaðurinn sterkari. Í mörgum tilvikum semja menn um einhverjar hækkanir þar á milli ára. Í þessum stærri og dýrari geira er verið að aftengja vísitöluna núna og hefur verið gert fyrir sumarið 2009 og 2010. Í einstaka tilvikum er líka verið að lækka eitthvað á milli ára. En þá erum við að tala um plús/ mínus fimm prósent,“ segir Óðinn.