Tíu sprotafyrirtæki munu kynna hugmyndir sínar og framtíðaráætlanir á fjárfestadegi sem haldinn verður í höfuðstöðvum Arion banka föstudaginn 23. ágúst.

Dagurinn markar lok nýsköpunarverkefnisins Startup Reykjavík sem er samstarfsverkefni Klak Innovit nýsköpunar- og Frumkvöðlaseturs og Arion banka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Startup Reykjavík. Fjárfestar munu hlýða á áætlanir sprotafyrirtækjanna en flest fyrirtækjanna þurfa á fjárfestum að halda til að tryggja framgang verkefna sinna.

Fyrirtækin eru fjölbreytt en þau stefna meðal annars á framleiðslu viskís, eins manns sleðarennibrautar niður Kambana við Hveragerði, nýrrar tegundar á fatnaði, hönnun og smíði búnaðar sem mælir árangur í líkamsrækt auk hugbúnaðar sem auðveldar starf golfkennara svo eitthvað sé nefnt.