Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 80,8 milljarða króna á þriðja fjórðungi ársins, en á fyrstu níu mánuðum ársins var viðskiptahallinn 205,3 milljarðar króna, samanborið við 103,1 milljarða krónu halla árið áður, segir í tilkynningu Seðlabankans.

Halli er á öllum liðum viðskiptajafnaðar;  vöruskipta-, þjónustu-, þáttatekna og rekstrarframlaga. Jöfnuður þáttatekna versnaði sýnu mest á þriðja fjórðungi ársins sem rekja má til hækkunar erlendra skulda og vaxtahækkana á lánamörkuðum erlendis, segir í tilkynningunni.

Einnig veldur mikill hagnaður innlendra fyrirtækja í eigu erlendra aðila þar miklu um því hann er færður til gjalda í jöfnuði þáttatekna og endurfjárfestur á sama tíma í fyrirtækjunum, þ.e. sem bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi.
Hreint fjárinnstreymi nam 199,5 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Fjárinnstreymið skýrist að stærstum hluta af erlendum lántökum banka og fyrirtækja. Erlendar fjárfestingar námu um 703 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2006.