Viðskiptabankarnir þrír spá því að samanlagður hagnaður stærstu fyrirtækjanna í Kauphöllinni muni nema um 128 milljörðum króna á þessu ári og mun hann ef spáin reynist rétt hafa vaxið um tæpa 60 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Hlutfallsleg aukning milli ára nemur 85%. Þetta má lesa úr afkomuspám bankanna fyrir yfirstandandi ár. Það sést vel þegar rýnt er í tölurnar hversu gríðarlega stórt fyrirtæki KB banki er orðinn á íslenskan mælikvarða því tæplega helmingur hagnaðaraukningarinnar kemur til vegna hans. Mikill vöxtur hagnaðar hans milli ára skýrist þó að hluta til af því að áhrifa danska bankans FIH gætti einungis seinna hluta síðasta árs.

KB banka er nú spáð rúmlega 42 milljarða króna hagnaði af keppinautum hans, Íslandsbanka og Landsbanka, sem er aðeins meiri hagnaður en þeirra tveggja síðastnefndu til samans. Íslandsbanka er spáð 18,6 milljarða króna hagnaði en Landsbankanum er spáð tæplega 20 milljarða króna hagnaði.

Viðskiptabankarnir ásamt Straumi og Tryggingamiðstöðinni standa á bak við 80% hagnaðarins en hagnaður þessara fjármálafyrirtækja eykst um 112% milli ára. Töluverður hluti af þessum hagnaði er gengishagnaður en það sem af er ári hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 40%.

Hlutfallslega mestri aukningu er spáð hjá TM eða þreföldun milli ára. Hagnaður KB banka mun aukast um 170%. Mesti umsnúningurinn milli ára verður hjá SÍF. Gert er ráð fyrir að hagnaðurinn félagsins verði tæplega 1,5 milljarður króna miðað við 350 milljóna króna tap fyrir sama tímabil í fyrra. Þessi umsnúningur skýrist að sjálfsögðu af algerri gerbreytingu á ásýnd félagsins með kaupunum á franska matvælafyrirtækinu Labeyries.