Hópur fjárfesta, sem tengist Viðskiptablaðinu, hefur keypt bresku frétta- og upplýsingaveituna M2 Communications Limited (M2). Fréttir og annað efni frá M2 nær til allt að sjö milljóna manna um allan heim á degi hverjum. M2 er einnig stærsta fyrirtæki Evrópu í dreifingu fréttatilkynninga og það þriðja stærsta í heiminum.

Fjárfestahópurinn er undir forystu Gunnars Jóhanns Birgissonar, stjórnarformanns Framtíðarsýnar, útgáfufélags Viðskiptablaðsins. Gunnlaugur Árnason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, hefur verið ráðinn aðalritstjóri M2 jafnframt því að ritstýra Viðskiptablaðinu. Samhliða kaupunum hefur Viðskiptablaðið stofnað fyrstu íslensku fréttastofuna á ensku, sem mun sérhæfa sig í íslenskum viðskiptafréttum.

"Með kaupunum skapast Viðskiptablaðinu ný tækifæri til vaxtar og með stofnun íslensku fréttastofunnar er í fyrsta sinn mögulegt að koma á framfæri áreiðanlegum upplýsingum um íslenskt viðskipta- og efnahagslíf til erlendra fjölmiðla og fjármálafyrirtækja frá íslenskum fjölmiðli," segir Gunnlaugur.

M2 var stofnað árið 1993 og hefur alla tíð verið rekið með hagnaði. Félagið sérhæfir sig í rafrænni fréttaþjónustu, dreifingu frétta og fréttatilkynninga. Félagið er með blaðamenn víða um heim; meðal annars í Bretlandi, Finnlandi, Póllandi og á Indlandi.

Fyrirtækið dreifir sínum eigin fréttum, sem blaðamenn félagsins skrifa, en einnig dreifir það efni frá utanaðkomandi aðilum, svo sem fréttatilkynningum, en þessir aðilar greiða fyrir þjónustu M2 en sjá alfarið um framleiðslu þess efnis sem dreift er. Dreifileiðir fyrirtækisins eru meðal annars Factiva -- samstarfsfélag Reuters og Dow Jones -- Financial Times World Reporter, LexisNexis, Bridge og Gale.

Rafrænir fréttamiðlar M2 eru meðal annars Nordic Business Report, Airline Industry Information, TelecomWorldWire og EquityBites.

Kaupverðið er trúnaðarmál. Landsbanki Íslands í London fjármagnaði yfirtökuna að hluta til og veitti ráðgjöf.