Viðskiptablaðið hefur gert samning við bandarísku fréttaveituna DowJones Newswires um að dreifa völdum fréttum frá félaginu í gegnum vefsíðuna vb.is.

"Samningurinn eykur þjónustuna við lesendur Viðskiptablaðsins og gerir þeim kleift að fylgjast nánar með því sem er að gerast á heimsmörkuðum á einum stað, í bland við innlendar fréttir úr viðskipta- og efnahagslífinu," segir Gunnlaugur Árnason, ritstjóri Viðskiptablaðsins."

DowJones-fréttaveitan var stofnuð árið 1882 af Edward David Jones, Charles Henry Dow og Charles Milford Bergstresser. Móðurfélagið, Dow Jones & Company, er skráð í kauphöllina í New York. Ásamt fréttaveitunni, rekur félagið viðskiptablaðið The Wall Street Journal, tímaritið Barron's, auk fleiri rita og minni dagblaða.