Viðskiptablaðið verður dagblað frá og með morgundeginum. Blaðið mun koma út fimm sinnum í viku, frá þriðjudegi til laugardags. Að sögn Gunnlaugs Árnasonar, ritstjóra blaðsins, mun áhersla áfram verða lögð á umfjöllun um viðskipti og efnhagsmál en samhliða fjölgun útgáfudaga hefur verið ákveðið að breikka efnistök blaðsins.

"Annars vegar erum við að svara aukinni eftirspurn eftir viðskiptafréttum, en á síðustu árum hefur vægi viðskiptafrétta aukist mikið í íslenskum fjölmiðlum. Hins vegar erum við að færast nær erlendum fyrirmyndum," segir Gunnlaugur.

"Samhliða auknum umsvifum íslenskra fyrirtækja og banka og aukinni fjölbreytni íslensks viðskiptalífs hefur skapast tækifæri til vaxtar. Viðskiptablaðið hefur ákveðið að nýta sér það tækifæri og nýlegar niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar gefa til kynna að veganestið sé gott," segir hann.

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar líkar flestum íslenskum stjórnendum 300 stærstu fyrirtækja landsins best við Viðskiptablaðið og 70% þeirra lesa blaðið reglulega.